Viðreisn

vidreisn.is

Viðreisn's Formaður: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Formaður

Logo

Atvinnumál

Þróttmikið atvinnulíf er nauðsynleg undirstaða öflugs velferðarkerfis. Því er mikilvægt að búa atvinnulífinu samkeppnishæf skilyrði til verðmætasköpunar fyrir þjóðfélagið. Íslendingar verða að búa sig undir fjórðu iðnbyltinguna og leggja grunn að atvinnulífi sem byggir á nýsköpun og þekkingariðnaði, atvinnulífi sem skapar þau störf sem velmenntaðir Íslendingar sækjast eftir. Til þess er nauðsynlegt að koma á stöðugleika í efnahags- og peningamálum og stuðla að markvisst að varanlegri lækkun vaxtastigs á Íslandi, en óstöðugur gjaldmiðill er helsti þrándur í götu framfara í íslensku atvinnulífi, ekki síst í nýsköpun.

Viðreisn stendur fyrir virka samkeppni og frjálst markaðshagkerfi. Ríkisafskipti af atvinnuvegum eiga að vera í lágmarki. Hið opinbera á fyrst og fremst að skapa góða umgjörð um atvinnulífið og aðeins að koma að samkeppnisrekstri ef ríkir almannahagsmunir krefjast. Stjórnvöld og atvinnulíf eiga að taka höndum saman um að útrýma kynbundnum launamun hvar sem hann er að finna. Til þess þarf þjóðarsátt.

Vinna þarf markvisst að því að auka framleiðni í íslensku atvinnulífi, en við stöndum nágrannalöndum okkar að baki hvað framleiðni varðar. Í þessu sambandi er mikilvægt að efla nýsköpun og þekkingariðnað. Efla þarf menntun á sviði tækniþróunar og auka hagræna hvata til frumkvöðlastarfsemi fjárfestinga í nýsköpun. Hækka þarf þak á endurgreiðslum til fyrirtækja vegna kostnaðar við rannsóknir og þróun. Breyta þarf Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins þannig að hann hætti fjárfestingum í einstökum fyrirtækjum en fjárfesti þess í stað í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum. Þannig dreifist áhætta, hægt er að veita aðhald og ná betri árangri.

Óstöðugur gjaldmiðill og hár fjármagnskostnaður stendur íslensku atvinnulífi fyrir þrifum og skerðir samkeppnishæfni. Sífelldar efnahagssveiflur, ofris og fall krónunnar á víxl torvelda fyrirtækjum að gera áætlanir til langs tíma og draga úr möguleikum þeirra til að vaxa og skapa atvinnutækifæri. Hátt gengi íslensku krónunnar hefur komið sér illa fyrir úftlutningsatvinnugreinar eins og sjávarútveg og ferðaþjónustu. En hinn séríslenski óstöðugleiki í efnahagsmálum bitnar verst á nýsköpunarumhverfinu þar sem sprotafyrirtæki festa ekki rætur. Niðurstaðan verður sú að þau flytjast úr landi. Erlendir fjárfestar eru tregir til að bæta gjaldeyrisáhættu við þá miklu áhættu sem fylgir nýsköpunarfjárfestingum.

Viðreisn vill stuðla að hagfelldu rekstrarumhverfi og koma á efnahagslegum stöðugleika með umbótum í gjaldmiðlamálum. Viðreisn hefur lagt til tvær raunhæfar lausnir: Annars vegar upptöku Evru með aðild að Evrópusambandinu og hins vegar tengingu íslensku krónunnar við stöðuga erlenda gjaldmiðla (svokölluð myntfesta eða myntráð), líkt og Danir og fleiri þjóðir hafa gert með góðum árangri. Þannig mun vaxtastig fljótt laga sig að alþjóðlegu umhverfi og fjármagnskostnaður íslenskra fyrirtækja lækka varanlega. Það er ekki bara spurning um hagkvæmni heldur einnig sanngirni að venjuleg lítil og meðalstór íslensk fyrirtæki búi við sambærilegt fjármögnunarumhverfi og stórfyrirtæki, bæði erlend og innlend.

Byggðarmál

Árangursrík byggðastefna felst í því að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í byggðum landsins. Einhæfni gerir samfélög berskjölduð fyrir breytingum á atvinnuháttum, sem þó eru óhjákvæmilegar og jafnvel hraðar í nútíma samfélagi. Því er nauðsynlegt að horfa til framtíðar og byggja upp sterka innviði sem staðið geta undir jákvæðri þróun og uppbyggingu fjölbreyttra atvinnutækifæra þar sem hæfni, menntun og mannauður eru í forgrunni. Tækniframfarir undanfarinna ára gera uppbyggingu framsækinnar atvinnustarfsemi í dreifbýli auðveldari en áður var. En til þess að nýta tækifærin þurfa nauðsynlegir innviðir að vera til staðar.

Viðreisn hefur lagt til stofnun innviðasjóðs sem hafi það að markmiði að standa undir nauðsynlegri uppbyggingu samfélagslegra innviða um allt land og verði fjármagnaður af gjöldum fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Stöðugleiki í gjaldmiðilsmálum er aftur nauðsynlegt skilyrði þess að uppbygging innviða skili tilætluðum árangri til langs tíma. Atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu, sjávarútveg og landbúnað hafa liðið fyrir hátt gengi krónunnar]. Óstöðugur gjaldmiðill er jafnframt orsök hárra vaxta sem koma ekki síst niður á fjármagnskostnaði fyrirtækja á landsbyggðinni, þar sem fjármögnunarkostir eru oft takmarkaðir. Gjaldmiðilsmálin eru mikilvægt byggðamál.

Greiður aðgangur að heilbrigðisþjónustu ein af forsendum blómlegrar byggðar. Nauðsynlegt er að skilgreina þá heilbrigðisþjónustu sem ber að veita í heimabyggð og tryggja að hún sé fyrir hendi. Efla þarf heilsugæslu um landið allt og tryggja heilbrigðisstofnunum nægt rekstrarfé. Þá er mikilvægt að nýta tækninýjungar svo sem fjarþjónustu á heilbrigðissviði.

Samgöngumannvirki verða að standast nútímakröfur. Landsmenn og ekki síður ferðamenn eiga að komast um öruggar samgönguæðar um allt land árið um kring. Án tafar þarf að gera úrbætur á fjölförnum vegum þar sem dæmin sýna að slys eru tíð. Vegakerfið þarf að mæta auknum fjölda ferðamanna, m.a. með fjölgun útsýnisútskota. Leggja þarf áherslu á fjölbreyttar samgöngur og greiða fyrir samgöngumáta sem stuðlar að heilbrigðari lífsstíl. Gæta skal þess að hagsmunir heildarinnar séu hafðir í fyrirrúmi við stefnumótun í samgöngumálum. Rétt er að skoða vandlega þá hugmynd að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur.

Öruggur aðgangur að rafmagni bæði fyrir heimili og atvinnustarfsemi. Flutningskerfi raforku þarf byggja upp þannig að það sinni orkuþörf almennings og atvinnulífs með öryggi hvar sem er á landinu. Ennfremur er mikilvægt þétta net hleðslustöðva fyrir rafbíla um landið allt. Þá þarf að haga lagningu raflína þannig að það valdi sem minnstri röskun og grafa í jörð eftir föngum þegar umhverfisrök eru sterk.

Háhraða netsamband á að vera öllum aðgengilegt. Fyrsta flokks netsamband er órjúfanlegur þáttur þess að gott atvinnu- og mannlíf fái þrifist um land allt. Þeirri uppbyggingu verður að hraða. Netsamband Íslands við umheiminn þarf að sama skapi að vera öflugt og traust. Gera þarf nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að tryggja að það rofni ekki.

Evrópumál

Viðreisn er alþjóða- og Evrópusinnaður flokkur. Aðild að Evrópusambandinu fylgja margir kostir sem styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Spurningin um aðild snýst framtíðarstöðu Íslands meðal Evrópuþjóða. Ákvörðun í málinu verður að vera í höndum þjóðarinnar. Hér má engum dyrum loka. Þess vegna er það stefna Viðreisnar að þjóðin fái að kjósa um það hvort aðildarviðræður við ESB verði teknar upp að nýju. Verði niðurstaðan jákvæð verða samningaviðræður teknar upp og þeim lokið með samningi sem verður lagður fyrir þjóðina til samþykkta eða synjunar.

Evrópusambandið byggir á hugsjónum frelsis, lýðræðis og mannréttinda. Markmið þess er að sameina efnahagslegar framfarir og almenna velferð borgaranna. Sambandið er enn fremur í fararbroddi á alþjóðavettvangi á sviðum öryggis- og friðarmála, umhverfismála og leiðandi í mótun samkeppnislöggjafar, meðal annars með því að veita alþjóðlegum stórfyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Evrópusambandið hefur sýnt í verki að það er bæði reiðubúið megnugt að standa vörð um hagsmuni neytenda, skattgreiðenda og borgaranna. Aðeins slík pólitísk samvinna þjóðríkja getur komið í veg fyrir að lýðræðið verði undir í hnattvæddum heim viðskipta.

Viðreisn telur að Ísland eigi heima meðal þjóða sem deila grunngildum okkar. Í því felst staðfesting á fullveldi landsins. Ísland á að vera stolt þjóð meðal þjóða.

Aðgangur Íslands að innri markaði Evrópu í gegnum EES samninginn er hryggjarstykkið í utarnríkisviðskiptum landsins og hefur reynst okkur vel. Miklar framfarir hafa meðal annars orðið á lagaumgjörð á sviðum samkeppnis- og umhverfismála. Íslendingar taka upp 2/3 hluta af regluverki ESB í gegnum samninginn en hins vegar höfum við engin áhrif á þróun þessara reglna sem við höfum þó skuldbundið okkur til þess að innleiða. Í þessu felst lýðræðishalli sem vegur beinlínis að fullveldi landsins.

Viðreisn telur það þjóna hagsmunum þjóðarinnar að stíga skrefið til fulls, að Ísland verði fullgildur aðili að Evrópusambandinu og hafi þar með beina aðkomu að þeirri lagasetningu sem mótar íslenskt samfélag í jafn ríkum mæli og raun ber vitni.

Stefna Viðreisnar er að koma á stöðugleika í gjaldmiðilsmálum með upptöku evru. Aðild að ESB er heppilegasta leiðin að því markmiði. Með stöðugum gjaldmiðli fæst betra efnahagslegur jafnvægi auk þess sem lækka má vaxtastig verulega og varanlega. Raunveruleg lækkun vaxta er einhver mesta kjarabót sem völ er á fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Fjölskylda með 20 m.kr. húsnæðislán á Íslandi greiðir 80 þúsund krónum meira í vexti á hverjum mánuði en fjölskylda í sömu stöðu í nágrannalöndunum. Venjuleg, lítil og meðalstór íslensk fyrirtæki búa sömuleiðis við laka samkeppnisstöðu gagnvart erlendum fyrirtækjum, sem hafa aðgang að fjármagni á mun betri kjörum. Í þessu felst ekki aðeins óhagræði heldur ósanngirni.

Það er einfaldlega of kostnaðarsamt fyrir samfélagið að halda úti litlum og óstöðugum gjaldmiðli. Kostnaðurinn samsvarar um 40 vinnudögum venjulegs Íslendings. Með öðrum orðum gætum við lengt sumarfríið okkar eða jólafríið 5-6 vikur, með samskonar vaxtaumhverfi og er til staðar á Norðurlöndunum, eða stytt vinnuvikuna verulega.

Heilbrigðismál

Öflugt heilbrigðiskerfi er ein af grunnstoðum samfélags. Stjórnvöldum ber skylda til þess að tryggja öllum aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu, óhað efnahag og búsetu. Forgangsraða þarf í ríkisfjármálum í þágu fjárfestingar í heilbrigðismálum. Heilsuefling og forvarnir eiga að vera forgangsmál í heilbrigðisþjónustunni sem langtímafjárfesting í heilbrigði og vellíðan þjóðarinnar. Halda þarf áfram uppbygginu Landspítala við Hringbraut og ljúka verkefninu á næstu fimm til sex árum. Uppbygging spítalans er forsenda fyrir skilvirkri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Auka þarf framlög til spítalaþjónustu. Skilgreina þarf þá þjónustu sem allir eiga rétt á í sinni heimabyggð. Þarfir notenda, gott starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna og gott eftirlit með þjónustunni á að fara saman. Boðið verði upp á fjölbreyttar þjónustuleiðir og samræmingu verkferla í heilbrigðiskerfinu. Efla þarf samvinnu milli heilbrigðisstofnana. Fjarlækningar verði efldar sem og fjarþjónusta á sviði sálfræði og stuðningsþjónustu.

Brýnt er að leggja sérstaka áherslu á stórfellda uppbygginu í öldrunarþjónustu, til dæmis með fjölgun hjúkrunarheimila fyrir aldraða en einnig með eflingu heimahjúkrunar.

Styrkja þarf heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað og einfalda leið fólks um heilbrigðiskerfið. Heilsugæslan veitir persónulega þjónustu og getur greint vandamál áður en þau verða alvarleg. Mikilvægt er að bregðast við heilsufarsvandamálum skjótt, og beina sjúklingum í réttan farveg.

Viðreisn vill stórátak í geðheilbrigðismálum með heildstæðri stefnumótun og leggur til að útgjöld til málaflokksins verði aukin um 1 ma. kr. Umfram þær 500 m.kr. sem gert er ráð fyrir í núgildandi aðgerðaáætlun, til þess að bæta þjónustu á sjúkrahúsum, heilsugæslunni og skólakerfinu. Lögð verði aukin áhersla á meðhöndlun geðrænna vandamála og forvarnir í tengslum við þau. Bæta þarf aðgengi að sálfræðiþjónustu og hún fari í skrefum inn í tryggingakerfið, til þess að tryggja aðgang að viðeigandi meðferðum óháð efnahag og félagslegum aðstæðum.

Vanlíðan er oft rót heilsufarsvandamála og mikilvægt er að styðja við börn og ungmenni með sálfræðihjálp. Þannig má mögulega draga úr brottfalli úr skólum, þunglyndi og vanlíðan. Mikilvægt er að heilbrigðis-, skóla og félagsmálayfirvöld vinni náið saman. Auka þarf áherslu á yngstu hópana, en Viðreisn hefur jafnframt lagt fram tillögur um að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu í skólakerfinu öllu, allt frá gunnskóla til háskóla.

Húsnæðismál

Mikill húsnæðisskortur kemur hart niður á ungu fólki sem er að reyna að kaupa sína fyrstu íbúð sem og tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum sem ráða ekki við hátt fasteignaverð og háa leigu íbúðarhúsnæðis. Nauðsynlegt er að auka verulega framboð íbúða og þá sér í lagi lítilla og ódýrra íbúða sem mikill skortur er á.

Viðreisn hafði frumkvæði að löngu tímabæru samstarfi ríkis og sveitarfélaga, þvert á pólitískar línur, til bregðast við bráðum vanda á húsnæðismarkaði.

Við höfum lagt fram áætlun um byggingu 2000 hagkvæmra eignaríbúða á ríkislóðum fyrir árslok 2019 og 3200 leiguíbúða sem reknar verði af leigufélgum styrktum af ríki og sveitarfélögum fyrir árslok 2019. Styrkja þarf úrræði fyrir ungt fólk til fyrstu kaupa. Heimila á ungu fólki að nýta allan séreignarsparnað sinn, þar með talið þau 3,5% af skylduiðgjaldi sem heimilt verður að leggja í séreign til útborgunar í fyrstu húsnæðiskaupum. Með þeim hætti eykst verulega sá sparnaður sem hægt verður að leggja í útborgun með þessum hætti og tíminn sem það tekur fólk að safna fyrir útborgun styttist verulega. Þetta stuðningsúrræði á að nýtast öllum þeim sem ekki hafa átt fasteign undangengin þrjú ár og hafa ekki áður nýtt séreignarsparnað sinn til fasteignakaupa.

Varanleg lækkun vaxta á húsnæðislánum er skilvirkasta leiðin til þess að auðvelda fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. Vextir eru mun hærri á Íslandi en gengur og gerist í nágrannalöndunum og greiðslubyrði að sama skapi langtum þyngri. Íslendingar eru að jafnaði mun lengur að borga niður húsnæðislán og frændur okkar á Norðurlöndum. Vaxtakostnaður á Íslandi þýðir að við greiðum að meðaltali tvisvar og hálfu sinni verðmæti fasteignar á meðan norðurlandabúar greiða að meðaltali einu og hálfu sinni verðmæti fasteigna sinna. Þegar upp er staðið samsvarar munurinn á greiðslubyrði heilli fasteign.

Helsta orsök hárra vaxta á Íslandi er óstöðugleiki íslensku krónunnar. Viðreisn hefur sett fram raunhæfar tillögur til þess að lækka vexti. Annars vegar upptöku stöðugs alþjóðlegs gjaldmiðils (t.d. Evru). Og hins vegar fastgengisstefnu, sem felst í því að tengja íslensku krónuna við stöðugri alþjóðlega gjaldmiðla (t.d. Evru), líkt og Danir og fleiri þjóðir hafa gert með góðum árangri. Stöðug mynt mun jafnframt gera verðtryggingu óþarfa og er eina raunhæfa leiðin til þess að losna við þetta séríslenska fyrirbæri sem er bein afleiðing af óstöðugum gjaldmiðli.

Jafnréttismál

Viðreisn er frjálslyndur flokkur sem setur jafnréttismál í forgrunn í allri stefnumótun. Fyrir síðustu kosningar lagði Viðreisn til að jafnlaunavottun yrði lögfest. Frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi fyrir tilstuðlan Viðreisnar strax á fyrstu mánuðum sem flokkurinn var í ríkisstjórn. Lögfesting jafnlaunavottunar er eitt stærsta skref sem stigið hefur til þess að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði um langt árabil.

Viðreisn ætlar að fylgja þessu eftir á næsta kjörtímabili með því að vinna að þjóðarsátt um bætt kjör umönnunar- og uppeldisstétta, sem oft er talað um sem hefðbundnar “kvennastéttir”. Kjör þessara stétta endurspegla ekki samfélagslegt mikilvægi þeirra, en undirstrika aftur á móti að vinnuframlag kvenna hefur ekki verið metið að verðleikum í gegnum tíðina. Þetta er rótgróið óréttlæti sem þarf að uppræta. Ríkið og sveitarfélög eru í flestum tilfellum vinnuveitendur þessara stétta og rétt er að opinberir aðilar hafi forgöngu um að leiðrétta þetta óréttlæti. Til að ná þessu markmiði verða ríki og sveitarfélög að vinna saman ásamt verkalýðshreyfingunni og stefna að sátt sem viðheldur stöðugleika á vinnumarkaði.

Viðreisn mun beita sér fyrir því að breyta kynjaójafnvægi í fjármálageiranum. Yfir 90% þeirra sem stýra fjármagni (stjórnir og æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og fjárfestingasjóða) eru karlmenn. Viðreisn vill að lífeyrissjóðir setji sér jafnréttisstefnu sem nái einnig til fjárfestinga þeirra. Rannsóknir staðfesta að fyrirtæki sem er stýrt að körlum og konum til jafns eru almennt betur rekin og ná almennt betri árangri. Það er því ekki íþyngjandi heldur skynsamlegt hvetja lífeyrissjóðina til að passa upp á jafnrétti í fjárfestingum. Og þetta viljum við gera með lagasetningu sem hvetur til gagnsæis.

Kynbundið ofbeldi er því miður útbreitt vandamál á Íslandi. Ofbeldi gegn konum og stelpum er skýrasta birtingarmynd þess að við búum ekki við jafnrétti á Íslandi. Þessi staða er ólíðandi.

Við þurfum löggjöf sem nær utan um veruleika brotanna og löggjöf sem getur mætt nýjum tegundum brota. Viðreisn mun beita sér fyrir því að styrkja þær stofnanir sem vinna úr kynbundnu ofbeldi, lögreglu og ákæruvald. Viðreisn hefur á nýliðnu kjörtímabili beitt sér fyrir réttarbótum á þessu sviði, m.a. með svokölluðu samþykkisfrumvarpi. Þar er skilgreiningu nauðgunar breytt til nútímahorfs. Samþykki er sett í forgrunn og þannig lýsir löggjafinn viðhorfi sínu til kynfrelsis og ákvörðunarréttar einstaklingsins til kynferðislegra athafna. Frumvarpið felur í sér merka réttarbót að mati helsta sérfræðings landsins í refsirétti. Það er mikilvægt að gera breytingu á almennum hegningarlögum og setja sérákvæði sem gerir stafrænt kynferðisofbeldi sem slíkt refsivert og vernda fólk gegn því að viðkvæmu persónulegu myndefni sé dreift án samþykkis. Slík lagasetning fæli jafnframt í sér skýr skilaboð löggjafans að um alvarleg brot sé að ræða sem nauðsynlegt er að berjast gegn.

Menntamál

Menntun á öllum sviðum hefur veigamikil áhrif á efnahag, nýsköpun og almenna velferð í samfélagi. Hátt menntunarstig helst í hendur við stjórnmálalegan stöðugleika og þroskaða þjóðmálaumræðu og lýðræðisvitund. Öflugt menntakerfi er því forsenda hagsældar framtíðarinnar. Skólakerfið þarf að búa okkur undir tækifæri og áskoranir atvinnulífs 21. aldarinnar.

Grunn- og framhaldsskóli

Viðreisn mun beita sér fyrir gerð heildstæðrar löggjafar um íslenskt menntakerfi sem auðveldi samfellu og flæði milli skólastiga. Stytting námstíma, til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndum, er verðugt markmið. En nauðsynlegt er að setja gæði náms, þá þekkingu og hæfni sem nemendur öðlast í forgrunn. Námshraði á að vera í samræmi við færni hvers og eins. Viðreisn er fylgjandi nýsköpun og fjölbreyttu rekstrarfyrirkomulagi skólastofnana.

Sporna þarf gegn brottfalli, sem er óvenju hátt meðal framhaldsskólanema í Íslandi, með því að bjóða upp á fjölbreytt nám og gera skapandi og starfstengdu námi hærra undir höfði. Sérstaklega þarf að styðja við hópa þar sem brottfall er hlutfallslega hátt [t.d. meðal drengja og nemenda af erlendum uppruna].

Jafnréttissjónarmið skulu höfð til hliðsjónar í öllu skólastarfi og markvisst ber að vinna gegn staðalímyndum og kynjahyggju. Menntamálayfirvöld þurfa að vera meðvituð um forsendur kynjaðs námsvals og leita leiða til að stuðla að jafnri stöðu kynjanna í einstökum námsgreinum og á vinnumarkaði.

Þá er mikilvægt að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan nemenda í samræmi við hugmyndafræði heilsueflandi skóla, huga að hreyfingu, næringu og geðrækt. Viðreisn vill auka aðgengi nemenda á öllum skólastigum að sálfræðiþjónustu.

Háskóli, rannsóknir og nýsköpun

Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til háskólanáms óháð efnahag og búsetu. Stefna Viðreisnar er að stuðningur við námsmenn í gegnum námslánakerfið verði á formi sýnilegra og beinna styrkja (fremur en hagstæðra vaxtakjara). Viðreisn er fylgjandi því að kjör námslána verði árangurshvetjandi og taki mið af framgangi og námsárangri. Afborganir námslána eiga áfram að vera tekjutengdar að hluta, til þess að tryggja jafnrétti til náms og stuðla að því að einstaklingar raungeri hæfileika sína á þeim áhugasviðum sem hæfa hverjum og einum.

Viðreisn vill auka fjárframlög til háskóla verulega og setur það markmið að Ísland standi öðrum Norðurlandaþjóðum jafnfætis við fjármögnun háskólanáms innan 4-5 ára. Nauðsynlegt er að endurskoða reiknilíkan háskóla með það að markmiði að auka gæði og fjölbreytileika náms.

Stjórnvöld og háskólasamfélagið þurfa að setja sér skýra stefnu um framtíð háskólaumhverfis á Íslandi. Viðreisn vill stuðla að eflingu skólastofnana með auknu samstarfi eins og kostur er en viðhalda jafnframt nauðsynlegri fjölbreytni og samkeppni. Háskólar, rannsóknastofnanir og atvinnulíf vinni meira og betur saman, og skapi umgjörð fyrir þróttmikið nýsköpunarstarf og stuðli að því að sprotar geti dafnað. Efla þarf innlenda samkeppnissjóði og auka sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði meðal annars með skilvirku stoðkerfi fyrir vísindafólk. Stefna verður að því að fjárframlög til rannsókna og þróunar verði aukin enn frekar. Til að svo megi verða þurfa hið opinbera og atvinnulífið að taka höndum saman.

Samgöngumál

Vegir eru víða í ólagi. Þörf á framkvæmdum og viðhaldi er víða brýn. Mikilvægar samgöngubætur hófust í ár, svo sem gröftur Dýrafjarðarganga, en mörg verkefni bíða. Tvöföldun Reykjanesbrautar, úrbætur vegakaflans milli Hveragerðis og Selfoss og Vesturlandsvegar, Grindavíkurvegi, vegur um Þorskafjörð, Dettifoss og Hornafjörð. Víða er nauðsynlegt að breikka vegaaxlir, og útrýma brotalínum meðfram þjóðveginum auk þess sem tímabært er að fjölga útsýnisútskotum til þess að mæta auknum ferðamannastraumi. Loks þarf að gera stórátak í fækkun einbreiðra brúa með áherslu á fjölförnustu leiðir.

Viðreisn vill setja 20 ára aðgerðaáætlun uppbyggingu vegakerfisisns og horfa til framtíðar með alþjóðlegar gæðakröfur að leiðaljósi. Bæta þarf vegakerfi landsins þannig að það uppfylli alþjóðlegar kröfur um umferðarþunga, öryggi og burðargetu. Með langtímahugsun förum við betur með almannafé og stuðlum að meira öryggi fyrir landsmenn. Viðreisn hefur lagt til stofnun innviðasjóðs sem fjármagni nauðsynlega uppbyggingu samfélagslegra innviða um allt land, þar á meðal þarfa uppbygginu vegakerfisins. Innviðasjóður verður fjármagnaður með gjöldum fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Öflugar almenningssamgöngur og hagsmunir þeirra sem kjósa að nota einkabílinn haldast fast í hendur. Samgöngumál eru öðrum þræði umhverfismál og Viðreisn vill beita sér fyrir umhverfisvænum samgönguháttum. Þar er sterkt og aðgengilegt kerfi almenningssamgangna stór þáttur. Þörf er á fjárfestingu í almenningssamgöngum á næstu árum og áratugum. Viðreisn styður lagningu Borgarlínu sem mun koma borgarbúum öllum vel með minni umferð á fjölförnum leiðum og liðka fyrir þeim sem kjósa að aka á eigin bíl. Mikilvægt er að fólk hafi raunhæfa valkosti um samgöngumáta. Þá er rétt að skoða þá hugmynd að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur.

Viðreisn leggur jafnframt áherslu á að fjölga umhverfisvænum faratækjum, með markvissri áætlun um orkuskipti í samgöngum á landi. Viðreisn hefur lagt áherslu á hagræna hvata til þess að fjölga bifreiðum sem ganga ekki fyrir jarðefnaeldsneyti, svo sem ívilnanir vegna innflutnings á rafbílum og niðurgreiðslu á uppbyggingu hleðslustöðva um landið allt. Markmiðið er að útrýma kolefnisorkugjöfum í samgöngum á landi.

Hafnabótasjóð þarf áfram að efla svo hægt verði að vinna niður lista brýnna hafnaframkvæmda hringinn í kringum landið. Mikilvægt er að vinna að því að koma upp raftengistöðvum fyrir skip í höfnum landsins.

Sjávarútvegsmál

Stefna Viðreisnar í sjávarútvegsmálum er skýr. Hún byggir á grunnhugmyndum um sjáflbæra nýtingu auðlindarinnar og verndun fiskistofna; þjóðhagslegri hagkvæmni stöðugu starfsumhverfi greinarinnar ásamt sanngjarnri gjaldtöku fyrir afnot af auðlindinni. Viðreisn leggur til að gjald fyrir tímabundin veiðirétt verði ákvarðað með uppboði. Viðreisn leggur jafnframt áherslu á að leitað verði eftir víðtækri og þverpólitískri sátt um gjaldtöku og framtíðar skipulag fiskveiða.

Fiskistofnarnir umhverfis Ísland eru sameiginleg auðlind þjóðarinnar sem á að njóta sanngjarns arðs af nýtingu hennar. Viðreisn vill auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem kveður skýrt á um þjóðareign. En tryggja verður þjóðareign í framkvæmd. Til þess duga ekki orðin tóm.

Þjóðareign í framkvæmd: Viðreisn vill að úthlutun aflaheimilda byggi á tímabundnum nýtingarrétti. Langtíma ákvarðanir eða samningar um nýtingarrétt tryggja stöðugleika og fyrirsjáanlegt umhverfi fyrir útgerðarfyrirtæki en undirstrika um leið að aflaheimilidir eru þjóðareign. Ekki er um ótímabundið framsal að ræða heldur er nýtingarrétturinn falinn í hendur útgerðarfélaga til afmarkaðs tíma. Með ákvörðunum eða samningum um veiðirétt til 20 eða 25 ára má sameina kröfur um hagkvæmni og stöðugleika greinarinnar við þá grunnforsendu að auðlindin sé þjóðareign.

Uppboð aflaheimilda er skilvirkasta leiðin til þess að ákvarða sanngjarnt gjald fyrir aflaheimildir. Með uppboðsleið má gera ráð fyrir að sjávarútvegsfyrirtæki greiði verð fyrir aflaheimildir sem er í samræmi við markaðsverðmæti afla án þess að skerða eðlilegan hagnað fyrirtækjanna. Uppboð felur í sér samkeppni um nýtingarrétt þar sem fyrirtæki bjóða eins hátt verð og þau treysta sér til. Skilvirkt uppboðsfyrirkomulag mun skila ríkissjóði auknum tekjum sem nýta skal til uppbyggingar innviða um landið allt.

Tillögur Viðreisnar fela í sér að árlega verði boðin upp um 4% aflaheimilda. Jafnframt gera þær ráð fyrir því að verulegur hluti gjaldsins renni í sérstakan innviðasjóð. Það er mikilvæg mótvægisaðgerð til þess að styrkja uindirstöður nýrrar atvinnusköpunar í kjölfar þeirrar hagræðingar sem óhjákvæmilega verður í sjávarútvegi.

Skattamál

Viðreisn hefur þá stefnu að einfalda skattkerfið og gera það gagnsærra og skilvirkara. Viðreisn telur hvorki nauðsynlegt né skynsamlegt að hækka skatta við núverandi efnahagsaðstæður. Tekjur ríkissjóðs eru nægar til að forgangsraða í þágu velferðar og greiða niður skuldir.

Viðreisn horfir til þess að einfalda skattkerfið til hagsbóta fyrir almenning í landinu. Lækka ber skattbyrði lág- og millitekjuhópa með endurskoðun tekjuskattskerfisins.

Viðreisn stefnir að einföldun virðisaukaskattskerfisins með fækkun undanþága og lækkun efra þrepsins. Til lengri tíma sé stefnt að einu virðisaukaskattsþrepi, 18%.

Lækka þarf tryggingagjaldið í áföngum um 1%. Viðreisn hefur beitt sér fyrir því að jafnræði ríki milli atvinnugreina og vill fækka undanþágum í skattkerfinu. Beita skuli skattalegum hvötum til fjárfestingar í nýsköpun. Ekki sé sett þak á slíka ívilnun enda mikilvæg nýsköpun unnin jafnt hjá stórum sem smáum fyrirtækjum.

Grænum hvötum sé beitt í skattkerfinu til að ýta undir umhverfisvænni samgöngur.

Stjórnarskrármál

Viðreisn telur nauðsynlegt að ljúka endurskoðun stjórnarskrár. Sátt þarf að ríkja um samfélagssáttmála okkar. Þegar hefur verið samþykkt í ráðgefandi þjóðaratkvæða greiðslu að byggt skuli á tillögum Stjórnlagaráðs. Þá liggja fyrir athugasemdir bæði Feneyjanefndar og annarra fræðimanna sem einnig þarf að horfa til. Vinna við endurskoðun stjórnarskrár hefur hins vegar legið niðri um nokkurt skeið. Viðreisn telur því mikilvægt að efna til samtals við þjóðina um stjórnarskrá að nýju.

Til þess að stuðla að lýðræðislegu samtali og aukinni sátt um stjórnarskránna er heppilegast að endurskoðunin fari fram í áföngum til dæmis með því að taka fyrir einstaka kafla sérstaklega. Þannig gefist fólki betra ráðrúm til að velta fyrir sér og móta afstöðu til einstakra þátta stjórnskipunarinnar. Til að mynda eru uppi ólík sjónarmið um hvert hlutverk forseta eigi að vera eða hvort og þá hvernig þröskulda beri að setja við bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er jöfnun atkvæðisréttar einnig óleyst viðfangsefni. Að þessari vinnu komi bæði fræðasamfélagið og almenningur til dæmis með því að efna til málstofa og greinargóðra kynninga á einstaka álitaefnum. Einnig kæmi til skoðunar að efna aftur til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá eða einstaka þætti hennar.

Hins vegar er það Alþingis að taka afstöðu til endanlegra breytinga á stjórnarskrá samkvæmt núverandi stjórnskipan. Það færi því vel á því að þessari vinnu væri lokið á næsta kjörtímabili þannig að unnt verði að staðfesta nýja stjórnarskrá í kjölfar þarnæstu alþingiskosninga.

Við endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er mikilvægt að tryggja að hann samræmist alþjóðlegum skuldbindingum okkar, hvort heldur sem litið er til Mannréttindasáttmála Evrópu eða samninga Sameinuðu þjóðanna. Þá gæti nýleg Mannréttindaskrá Evrópusambandsins (EU Charter on Fundamental Rights) nýst sem viðmið við mótun ákvæða um efnahagsleg og félagsleg réttindi en Mannréttindaskráin hafði ekki tekið gildi þegar Stjórnlagaráð vann tillögur sínar. Að sama skapi er brýnt að kveða skýrt á um heimildir ríkisins til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og huga að því hvaða gildi alþjóðlegir samningar hafa að landsrétti. Að auki þarf að kveða skýrt á um eign þjóðarinnar á auðlindum landsins í stjórnarskrá enda ríkir almenn sátt um slíkt ákvæði meðal þjóðarinnar.

Umhverfismál

Sjáflbærni og skynsamleg nýting náttúruauðlinda, með áherslu á jafnvægi milli umhverfisverndar og nýtingarsjónarmiða eru leiðarstef í umhverfisstefnu Viðreisnar. Ísland á að vera í fremstu röð meðal þjóða heims í umhverfismálum. Hagsæld þjóðarinnar byggir að miklu leiti nýtingu viðkvæmrar nátturu sem okkur ber að virða og varðaveita. Skylda okkar er að skila hreinu og heilnæmu umhverfi til komandi kynslóða.

Loftslagsmál og sú hnattræna vá sem fylgir hlýnun jarðar er brýnasta viðfangsefni samtímans. Íslendingar hafa, ásamt með þjóðum heims, skuldbundið sig til þess að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Ef fram heldur sem horfir munum við ekki uppfylla þessar skuldbindingar og við eigum langt í land. Okkur ber fyrst og fremst siðferðisleg skylda til þess að standa við gefin fyrirheit í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun. En auk þess er viðbúið að ef okkur tekst það ekki munum við þurfa að greiða fyrir losunarkvóta, sem munu kosta samfélagið milljarða á hverju ári og tugi milljarða á nokkrum árum. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnvöld grípi tafarlaust til markvissra aðgerða í þessum málum. Fráfarandi ríkisstjórn hóf kortlagningu og gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum í vor og þeirri vinnu verður að fylgja eftir af festu.

Það er ljóst að mestu möguleikar okkar Íslendinga til þess að draga úr kolefnislosun felast í breyttum samgönguháttum og orkuskiptum bílaflotans. Við eigum að nota þá hreinu orku sem við eigum og stefna að mjög hröðum orkuskiptum.

Viðreisn leggur til markvissa áætlun um orkuskipti í samgöngum, þar sem beitt verði hagrænum hvötum. Auðvelda á rafbílavæðingu með áframhaldandi ívilnunum vegna innflutnings á umhverfisvænum ökutækjum og stefnt skal að því að jafna stöðu allra landsmanna til þess að nýta sér kosti rafbíla.

Nauðsynlegt er að vinna að þéttu neti hleðslustöðva fyrir rafbíla um landið allt. Viðreisn vill stefna að því að eftir árið 2025 verði ekki fluttir inn bílar nema þeir gangi fyrir rafmagni að hluta eða alfarið, eða nýti aðra umhverfisvæna orkugjafa. Viðreisn hefur sýnt þennan vilja í m.a. með áformum um að fella niður virðisauka á rafbíla til þriggja ára. Viðreisn hefur lagt áherslu á hagræna hvata og gengur út frá því grunnsjónarmiði að þeir borgi sem menga.

Efla þarf almenningssamgöngur sem raunhæfan valkost við einkabílinn. Viðreisn styður uppbyggingu borgarlínu og þéttingu byggðar sem leiðir til orkusparnaðar.

Velferðarmál

Velferðarkerfið á að stuðla að því að allir hafi möguleika til vinnu og geti nýtt hæfileika sína og krafta til fulls. Íslandi á að vera fjölskylduvænt samfélag sem stenst samanburð við Norðurlöndin, meðal annars í húsnæðismálum og umönnun barna og aldraðra. Ríki og sveitarfélög samræmi stefnu og vinni saman að því að veita heildstæða þjónustu.

Húsnæðismál eru velferðarmál. Húsnæði á að veita öryggi en á Íslandi valda húsnæðismál mörgum áhyggjum. Viðreisn hefur sett fram skýra stefnu í húsnæðismálum sem miðar bæði að því að bæta kjör á leigumarkaði sem og auðvelda ungu fólki og fyrstu kaupendum og komast inn á húsnæðismarkaðinn. Viðreisn vill afnema frítekjumark atvinnutekna í einu skrefi. Eldri borgarar skulu eiga kost á því að nýta starfsorku sína og vilja til þess að stunda atvinnu án þess að komi til skerðinga á lífeyri. Þeir eiga að njóta eðlilegs afraksturs vinnu sinnar líkt og aðrir.

Viðreisn vill brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, sem gerir foreldrum auðveldara að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Leikskólapláss eiga að vera í boði fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri. Ríkið og sveitarfélög þurfa að taka höndum saman, þannig að öll börn á landinu eigi þess að kost að geta hafið leikskólagöngu við 12 mánaða aldur.

Viðreisn vill hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Greiðslur foreldra í fæðingarorlofi voru skertar verulega á árunum eftir 2008 og hafa enn ekki náð því að vera sambærilegar því sem þær voru fyrir hrun. Viðreisn vill hækka þak í fæðingarorlofi verulega. Það er liður í því að styðja við barnafjölskyldur, veita börnum dýrmætan stuðning og auka þátt feðra í fæðingarorlofi.

Viðreisn hefur ákveðið að beita sér fyrir þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta og leggja mikla áherslu á jafnréttismál í sinni víðustu mynd á komandi árum. Flokkurinn hefur náð margþættum árangri á þessu sviði á undanförnum mánuðum og þar ber auðvitað hæst jafnlaunastaðallinn sem festur var í lög undir forystu Þorsteins Víglundssonar félags- og jafnréttismálaráðherra og er vafalítið stærsti áfangi sem náðst hefur í jafnréttismálum í langan tíma.