Jafnréttismál

Björt Framtíð

Björt framtíð er róttækur jafnréttisflokkur með feminískar áherslur. Björt framtíð hefur sýnt það í verki með því m.a. að konur eru tveir þriðju af framvarðarsveit flokksins. Af þeim eru tvær konur fyrsta kynslóð innflytjenda. Björt framtíð telur mikilvægt að raddir ólíkra hópa samfélagsins ekki bara heyrist, heldur að þessir hópar hafi tækifæri til að koma að ákvarðanatöku um framtíð íslensks samfélags. Í vinnu sinni á alþingi og í ríkisstjórn hefur Björt framtíð sýnt að jafnrétti til þátttöku í samfélagi fyrir alla sé afar mikilvægt t.d. með áherslu sinni á málefni fatlaðra, kvenna, hinsegin fólks, innflytjenda og flóttamanna. Björt framtíð telur að kynbundið ofbeldi sé alvarlegt mein í íslensku samfélagi og hefur sýnt það í verki með frumvörpum sínum t.d. varðandi hefndarklám, en ekki síst með því að taka alvarlega þá leyndarhyggju sem átti sér stað innan ríkisstjórnarsamstarfs varðandi kynbundið ofbeldi að flokkurinn sá ástæðu til þess að slíta ríkisstjórnarsamstarfi vegna þess. Björt framtíð telur að kynbundinn launamunur sé ólíðandi og telur að allar opinberar ákvarðanir skuli taka tillit til kyns og áhrifum ákvarðana á ólíka hópa samfélagsins. Jafnrétti kynja tekur ekki einungis til kvenna heldur er mikilvægt að huga að öllum kynjum. Þess vegna telur Björt framtíð að það sé t.d. mikilvægt að jafna aðstæður lögheimilisforeldra og umgengisfoldeldra. Jafnrétti er grunnstef í hugmyndafræði, aðgerðum og athföfnum Bjartar framtíðar

Framsóknarflokkurinn

Framsókn setur manngildi ofar auðgildi og vill að hver og einn hafi jafnan rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag. Nálgast verður jafnrétti sem mannréttindamál. Jafnrétti snýst um mannréttindi. Mikilvægt er að það sé bannað að mismuna eftir kyni, aldri, fötlun, kynhneigð, kynvitund, trú eða stöðu að öðru leyti.. Jöfn laun karla og kvenna er forgangsmál því að kynbundinn launamunur er ein versta birtingarmynd kynjamismunar og honum verður að eyða.

Framsókn vill að Ísland verði áfram í fararbroddi í mannréttindum og jafnrétti og efli þróunaraðstoð Mannréttinda- og jafnréttismál skipi áfram veglegan sess í utanríkisstefnu Íslands á vettvangi alþjóðastofnana og samskiptum Íslands við önnur ríki og ríkjasambönd. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi í þessum málaflokki á heimsvísu og beiti sér gegn mannréttindabrotum. Unnið skal áfram að uppbyggingu þróunarsamvinnu og þekkingu sem byggð hefur verið upp innanlands á vettvangi Háskóla Sameinuðu þjóðanna, í sjálfbærum sjávarútvegi, jarðhita, jafnrétti og landgræðslu. Unnið verði að því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu endurspegli markmið Sameinuðu þjóðanna.

Mikilvægt er að Ísland beiti sér áfram fyrir þróunarsamvinnuverkefnum sem stuðla að jafnrétti kynjanna Sýnt hefur verið fram á aukin efnahagslegan ávinning fyrir ríki heims með virkri þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Ísland á að tala máli hinsegin fólks á alþjóðavettvangi

Viðreisn

Viðreisn er frjálslyndur flokkur sem setur jafnréttismál í forgrunn í allri stefnumótun. Fyrir síðustu kosningar lagði Viðreisn til að jafnlaunavottun yrði lögfest. Frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi fyrir tilstuðlan Viðreisnar strax á fyrstu mánuðum sem flokkurinn var í ríkisstjórn. Lögfesting jafnlaunavottunar er eitt stærsta skref sem stigið hefur til þess að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði um langt árabil.

Viðreisn ætlar að fylgja þessu eftir á næsta kjörtímabili með því að vinna að þjóðarsátt um bætt kjör umönnunar- og uppeldisstétta, sem oft er talað um sem hefðbundnar “kvennastéttir”. Kjör þessara stétta endurspegla ekki samfélagslegt mikilvægi þeirra, en undirstrika aftur á móti að vinnuframlag kvenna hefur ekki verið metið að verðleikum í gegnum tíðina. Þetta er rótgróið óréttlæti sem þarf að uppræta. Ríkið og sveitarfélög eru í flestum tilfellum vinnuveitendur þessara stétta og rétt er að opinberir aðilar hafi forgöngu um að leiðrétta þetta óréttlæti. Til að ná þessu markmiði verða ríki og sveitarfélög að vinna saman ásamt verkalýðshreyfingunni og stefna að sátt sem viðheldur stöðugleika á vinnumarkaði.

Viðreisn mun beita sér fyrir því að breyta kynjaójafnvægi í fjármálageiranum. Yfir 90% þeirra sem stýra fjármagni (stjórnir og æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og fjárfestingasjóða) eru karlmenn. Viðreisn vill að lífeyrissjóðir setji sér jafnréttisstefnu sem nái einnig til fjárfestinga þeirra. Rannsóknir staðfesta að fyrirtæki sem er stýrt að körlum og konum til jafns eru almennt betur rekin og ná almennt betri árangri. Það er því ekki íþyngjandi heldur skynsamlegt hvetja lífeyrissjóðina til að passa upp á jafnrétti í fjárfestingum. Og þetta viljum við gera með lagasetningu sem hvetur til gagnsæis.

Kynbundið ofbeldi er því miður útbreitt vandamál á Íslandi. Ofbeldi gegn konum og stelpum er skýrasta birtingarmynd þess að við búum ekki við jafnrétti á Íslandi. Þessi staða er ólíðandi.

Við þurfum löggjöf sem nær utan um veruleika brotanna og löggjöf sem getur mætt nýjum tegundum brota. Viðreisn mun beita sér fyrir því að styrkja þær stofnanir sem vinna úr kynbundnu ofbeldi, lögreglu og ákæruvald. Viðreisn hefur á nýliðnu kjörtímabili beitt sér fyrir réttarbótum á þessu sviði, m.a. með svokölluðu samþykkisfrumvarpi. Þar er skilgreiningu nauðgunar breytt til nútímahorfs. Samþykki er sett í forgrunn og þannig lýsir löggjafinn viðhorfi sínu til kynfrelsis og ákvörðunarréttar einstaklingsins til kynferðislegra athafna. Frumvarpið felur í sér merka réttarbót að mati helsta sérfræðings landsins í refsirétti. Það er mikilvægt að gera breytingu á almennum hegningarlögum og setja sérákvæði sem gerir stafrænt kynferðisofbeldi sem slíkt refsivert og vernda fólk gegn því að viðkvæmu persónulegu myndefni sé dreift án samþykkis. Slík lagasetning fæli jafnframt í sér skýr skilaboð löggjafans að um alvarleg brot sé að ræða sem nauðsynlegt er að berjast gegn.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisstefnan grundvallast á frelsi og ábyrgð, jafnrétti og samkennd. Hún er víðsýn og frjálslynd framfarastefna. Sjálfstæðismenn hafa einstaklingsfrelsi, atvinnufrelsi og séreignarrétt í hávegum, með hagsmuni allra fyrir augum. Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja jöfn tækifæri allra. Við teljum það grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri kvenna og karla.

Flokkur Fólksins

Flokkurinn vísar í og virðir 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 en þar segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

  • Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Miðflokkurinn

Við ætlum að styrkja stöðu Íslands sem leiðandi ríkis á sviði jafnréttis og beita henni markvisst til að efla kynjajafnrétti annarsstaðar í heiminum.

Við viljum efla jafnrétti því ekkert ríki getur verið fullþróað án jafnrétti kynjanna.

Píratar

Píratar vilja berjast gegn allri mismunun gagnvart einstaklingum hvort sem hún er á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, trúarbragða, uppruna, litarháttar, lífskoðana, fötlunar eða annarra persónueinkenna.

Píratar vilja fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kynferðisofbeldi með aukinni fræðslu á grunn- og menntaskólastigi, auk þess að fagstéttir fái aukna þjálfun í því að kljást við kynferðisofbeldi. Við viljum að tillögum starfshóps forsætisráðuneytisins um kynferðisofbeldi frá 2013 sé fylgt eftir meðal annars með áhættumati á dæmdum barnaníðingum og auknum meðferðarúrræðum fyrir þá.

Ísland stendur framarlega á mörgum sviðum jafnréttis en ekkert nema A+ er ásættanlegt í þessum málaflokki! Sérstaklega þarf að huga að réttindum fatlaðra einstaklinga og vegur þar þyngst lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þar með notendastýrð persónuleg þjónusta til frambúðar.

Píratar vilja hvetja til opinnar og upplýstrar umræðu um jafnréttismál. Sú umræða þarf að hefjast innan menntakerfisins með áherslu á upprætingu fordóma og staðalímynda. Launajafnrétti verður tryggt með auknum aðgangi að upplýsingum um laun og fríðindi og unnið verður markvisst að því að eyða staðalímyndum um starfsstéttir.

Alþýðufylkingin

Mannréttindi eru ekki verslunarvara og þau eru ekki framseljanleg. Þau eru heldur ekki sjálfsögð eða meðfædd og ekki örugg, heldur sigurlaun langrar og strangrar baráttu sem stendur enn. Mannréttindi vernda minnihlutahópa og þá sem standa höllum fæti í samfélaginu.

Samkynhneigðir hafa náð miklum réttindum á Íslandi þökk sé áratugabaráttu. Á sama tíma er fólki oft mismunað á Íslandi vegna annarra hluta og það stundum töluvert. Nefna má launamisrétti, aðgengi að vinnu, þjóðkirkju, 5% atkvæðalágmark til að ná sæti á Alþingi o.s.frv. Þá er vaxandi útlendingaandúð mikið áhyggjuefni.

Ekki má gleyma mismunun vegna fötlunar: Öryrkjar og aðrir bótaþegar eru dæmdir til fátæktar og þannig gróflega mismunað. Við viljum hækka bætur upp í framfærsluviðmið, þótt það komi seint í stað góðrar heilsu.

Alþýðufylkingin vill laga stofnanir velferðarkerfisins betur að þörfum skjólstæðinga sinna með því að skikka þær til að upplýsa fólk betur um réttindi sín og skyldur, að eigin frumkvæði.Velferðarkerfið á að skaffa fólki sinn eigin þjónustufulltrúa til að halda utan um mál sín. Við viljum stofna embætti umboðsmanns skjólstæðinga velferðarkerfisins.

Við viljum að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og komi notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) á laggirnar.

Úrskurður í ágreiningsmálum verði að kostnaðarlausu fyrir aðila, þar á meðal fyrir dómstólum, þannig að réttarfar ráðist ekki af fjárhagsstöðu.

Þeir sem standa höllum fæti hagnast mest á auknum jöfnuði. Svarið við mismunun er því jöfnuður. Við viljum afnema launaleynd, koma á gegnsærri launamyndun og draga þannig mismunun fram í dagsljósið svo hún verði erfiðari í framkvæmd.

Samfylkingin

Allir eiga að búa við jafnrétti og frelsi og jöfn tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Ólíkur bakgrunnur fólks og fjölbreytni í mannlífinu gerir samfélagið auðugra og skemmtilegra. Virk jafnréttisstefna og löggjöf um jafna stöðu kynja er nauðsynleg til að tryggja að atvinnulífið fái notið reynslu, hæfileika og þekkingu allra óháð kyni þeirra.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • ráðist verði í stórsókn gegn ofbeldi og til þess verði varið einum milljarði á ári, m.a. til þess að efla löggæslu, fjölga lögregluþjónum og rannsakendum stórlega, auka forvarnir og fræðslu og samræma móttöku þolenda kynferðis og heimilisofbeldis um allt land.
  • stjórnvöld setji langtímamarkmið og framkvæmdaráætlun um breytingar á kynbundnu náms- og starfsvali sem til lengri tíma hefur áhrif á kynbundinn vinnumarkað og launamun.
  • forstöðumenn opinberra stofnana verði áminntir ef kynbundinn launamunur viðgengst undir þeirra stjórn.
  • þjónusta við fatlað fólk sé mannréttindamál, ekki félagslegt úrræði. Vinna þarf áfram að viðhorfsbreytingu og rétti fatlaðs fólks til einkalífs og sjálfsákvörðunarréttar.
  • Ísland verði áfram í fararbroddi í réttindabaráttu hinsegin fólks og að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir réttindum hinsegin fólks á heimsvísu, gegn hatursorðræðu og ofbeldi.

Dögun

Dögun er jafnréttissinnaður flokkur sem hafnar mismunun. Dögun vill uppræta óútskýrðan launamun kynjanna. Í því skyni ber að koma á samræmdu starfsmati með lögum, þvert á kjarasamninga og læra af reynslu sveitarfélaga. Hafa skal hliðsjón af kröfum Dögunar um lögfestingu raunhæfra framfærsluviðmiða eftir fjölskyldustærð.

Dögun vill að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi í launajafnrétti. Dögun styður aukin réttindi til fæðingarorlofs sem stuðli að virkari þátttöku feðra í uppeldi barna sinna og komi jafnræði á réttindi og skyldur foreldra gagnvart heimili og á vinnumarkaði. Í því skyni að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði vill Dögun rjúfa glerþakið þ.e. þær ósýnilegu hindranir sem varna konum framgangi í atvinnulífinu. Þá verði launaleynd afnumin í reynd eins og lög gera ráð fyrir. Dögun telur tímabundna kynjakvóta koma til álita sem neyðarúrræði ef aðrar leiðir duga ekki. Skoða þarf áhrif vinnutíma á jafnrétti. Dögun styður skjótar og varanlegar umbætur á kjörum og réttindum meðlagsgreiðenda („umgengnisforeldra“) sem eru allt að 14.000 talsins en flestir þeirra eru feður. Dögun vill ná þessum umbótum fram í samráði við hagsmunaaðila og fræðasamfélag. Réttur beggja foreldra til umsjár barna skal virtur með þeirri ábyrgð sem foreldrahlutverkið felur í sér. Dögun vill að félagsleg staða kynjanna, sé skoðuð og bætt þar sem á bjátar. Einnig þarf að efla skráningu kyngreindra upplýsinga er varða einstæða foreldra. Að því er varðar konur: áhrif kynbundins ofbeldis á líf og heilsu, lægri laun, álag af ummönnunarstörfum innan heimilis og viðkvæm staða einstæðra mæðra. Að því er varðar karla: áhrif ofbeldis sem þeir verða fyrir, fjölda sjálfsvíga, tölur um fangelsisvist, brottfall úr námi, félagsleg einangrun og andleg heilsa. Dögun vill vinna gegn staðalmyndum. Þetta vill Dögun gera með aukinni fræðslu og umræðu um stöðu kynjanna. Dögun vill útrýma kynbundnu ofbeldi vændi og mansali sem hverju öðru mannréttindabroti og virkja bæði frjáls félagasamtök og bæta réttarvörslu í því skyni.

Vinstri Græn

Upprætum allar birtingarmyndir kynjamisréttis í samfélaginu

Vinstrihreyfingin – grænt framboð einsetur sér að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis í samfélaginu og brjóta þannig upp kynjakerfi sem er skaðlegt fyrir stöðu, tækifæri og þátttöku allra. Þannig sköpum við betra samfélag fyrir okkur öll óháð kyni.

Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur áherslu á að kynbundnum launamun verði útrýmt að fullu. Afnema þarf launaleynd að fullu og tryggja gagnsæja og hlutlæga ákvarðanatöku í launamálum. Þá þarf að takast á við launabilið í heild sinni með því að bæta kjör kvennastétta. Eldri konur sem búa við takmörkuð lífeyrisréttindi eiga að njóta fullnægjandi kjara á vegum opinbera tryggingarkerfisins.

Vinstrihreyfingin grænt framboð vill brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með því að efla fæðingarorlofssjóð og lengja fæðingarorlofið í áföngum í tólf mánuði. Tryggja þarf að leikskólarnir taki við börnum strax að afloknu lengdu fæðingarorlofi.

Stytta þarf vinnutímann án skerðingar launa og auka þannig lífsgæði almennings og stuðla að jafnari ábyrgð á heimilisstörfum og jafnari tækifærum til þátttöku í samfélaginu, í atvinnulífi og stjórnmálum.

Tryggja verður menntun á sviði jafnréttis og kynjafræði á öllum skólastigum. Vinna þarf gegn staðalímyndum um stelpur og stráka í skólakerfinu. Efla verður menntun og forvarnir gegn kynferðisofbeldi, þar á meðal stafrænu kynferðisofbeldi.

Endurskoða með metnaðarfullum hætti löggjöf um trans og intersex með mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt að leiðarljósi.

Kynbundið ofbeldi er alvarlegasta birtingarmynd kynjamisréttis. Vinstrihreyfingin grænt framboð mun ráðast í aðgerðir til að bæta réttarstöðu brotaþola kynbundins ofbeldis og stórefla fræðslu og forvarnir.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun endurbæta og framfylgja aðgerðaáætlunum til að útrýma öllum formum af kynbundnu ofbeldi og leggja ríka áherslu á öflugt samstarf ríkis og sveitarfélaga.

Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur áherslu á að framfylgja verði ákvðum laga sem banna ofbeldi af öllum toga og styrkja þarf löggjöf gegn stafrænu kynferðisofbeldi, þar á meðal hrelliklámi. Líkami manneskju má aldrei vera söluvara og setja þarf meiri kraft í að fylgja eftir og fullmóta aðgerðir gegn mansali.

Sjá einnig:

Áfram stelpur (kosningaáherslur 2017): http://vg.is/stefnan/kosningar2017afram-stelpur

Ályktanir landsfundar 2017 um jafnréttismál (bls. 10-13): http://vg.is/wp-content/uploads/2017/09/Landsfundur-2017-sam%C3%BEykktar-%C3%A1lyktanir.pdf

Ítarleg stefna VG um kvenfrelsi: http://vg.is/stefnan/kvenfrelsi