Stjórnarskrármál

Björt Framtíð

Björt framtíð leggur mikla áherslu á að vinna við endurskoðun stjórnarskrár hefjist sem allra fyrst. Í ríkisstjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar, sem Björt framtíð átti aðild að, var það eitt af stefnumálunum að unnið yrði að endurskoðun stjórnarskrár á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Ríkisstjórnin hugðist bjóða öllum flokkum sem sæti ættu á Alþingi að skipa fulltrúa í þingmannanefnd sem starfa átti með færustu sérfræðingum á sviði stjórnskipunar að sem bestri sátt um tilögur að breytingum sem leggj átti fram eigi síðar en 2019. Með því mætti ná sátt um það í hverju breytingarnar væru fólgnar og hvernig þær yrðu útfærðar. Slík þverpólitísk sátt er eina raunhæfa leiðin til að sátt verði um svo viðamikið og mikilvægt mál en leggur áherslu á að niðurstaða Stjórnlagaráðs verði höfð að leiðarljósi.

Framsóknarflokkurinn

Framsókn vill tryggja sanngjarnan arð til þjóðarinnar af sameiginlegum auðlindum og að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá

Ísland byggir velsæld sína að miklu leyti á náttúruauðlindum landsins. Framsókn vill að skilgreint sé hvað flokkast undir auðlindir og auðlindákvæði verði sett í stjórnaskrá til að tryggja eignarhald og landsmönnum sanngjarnan arð af sameiginlegum auðlindum. Með bókhaldi náttúruauðlinda er hægt að auka yfirsýn yfir auðlindir landsins og skilgreina nýtingu þeirra með sjálfbærni að leiðarljósi.

Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að taka mið af nýju auðlindaákvæði og skýrum ákvæðum um beint lýðræði og ekki verði opnað á framsal fullveldis. Framsóknarflokkurinn er hlynntur persónukjöri og vill auka vægi beins lýðræðis við ákvarðanatöku samfélagsins, meðal annars með lögfestingu reglna um þjóðarfrumkvæði.

Viðreisn

Viðreisn telur nauðsynlegt að ljúka endurskoðun stjórnarskrár. Sátt þarf að ríkja um samfélagssáttmála okkar. Þegar hefur verið samþykkt í ráðgefandi þjóðaratkvæða greiðslu að byggt skuli á tillögum Stjórnlagaráðs. Þá liggja fyrir athugasemdir bæði Feneyjanefndar og annarra fræðimanna sem einnig þarf að horfa til. Vinna við endurskoðun stjórnarskrár hefur hins vegar legið niðri um nokkurt skeið. Viðreisn telur því mikilvægt að efna til samtals við þjóðina um stjórnarskrá að nýju.

Til þess að stuðla að lýðræðislegu samtali og aukinni sátt um stjórnarskránna er heppilegast að endurskoðunin fari fram í áföngum til dæmis með því að taka fyrir einstaka kafla sérstaklega. Þannig gefist fólki betra ráðrúm til að velta fyrir sér og móta afstöðu til einstakra þátta stjórnskipunarinnar. Til að mynda eru uppi ólík sjónarmið um hvert hlutverk forseta eigi að vera eða hvort og þá hvernig þröskulda beri að setja við bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er jöfnun atkvæðisréttar einnig óleyst viðfangsefni. Að þessari vinnu komi bæði fræðasamfélagið og almenningur til dæmis með því að efna til málstofa og greinargóðra kynninga á einstaka álitaefnum. Einnig kæmi til skoðunar að efna aftur til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá eða einstaka þætti hennar.

Hins vegar er það Alþingis að taka afstöðu til endanlegra breytinga á stjórnarskrá samkvæmt núverandi stjórnskipan. Það færi því vel á því að þessari vinnu væri lokið á næsta kjörtímabili þannig að unnt verði að staðfesta nýja stjórnarskrá í kjölfar þarnæstu alþingiskosninga.

Við endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er mikilvægt að tryggja að hann samræmist alþjóðlegum skuldbindingum okkar, hvort heldur sem litið er til Mannréttindasáttmála Evrópu eða samninga Sameinuðu þjóðanna. Þá gæti nýleg Mannréttindaskrá Evrópusambandsins (EU Charter on Fundamental Rights) nýst sem viðmið við mótun ákvæða um efnahagsleg og félagsleg réttindi en Mannréttindaskráin hafði ekki tekið gildi þegar Stjórnlagaráð vann tillögur sínar. Að sama skapi er brýnt að kveða skýrt á um heimildir ríkisins til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og huga að því hvaða gildi alþjóðlegir samningar hafa að landsrétti. Að auki þarf að kveða skýrt á um eign þjóðarinnar á auðlindum landsins í stjórnarskrá enda ríkir almenn sátt um slíkt ákvæði meðal þjóðarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn

  • Stjórnarskráin er grunnlög landsins og breytingar á henni geta reynst afdrifaríkar
  • Vanda þarf breytingar og forðast kollsteypur
  • Víðtæk sátt þarf að vera um stjórnarskrárbreytingar

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins. Stjórnarskráin kveður á um grundvallarreglur lýðveldisins og mannréttindi borgaranna. Hyggja þarf vel að breytingum á stjórnarskránni og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til að gaumgæfa tillögur að breytingum á henni.

Í þessu ljósi telur Sjálfstæðisflokkurinn að fara skuli varlega í breytingar á stjórnarskránni. Heildarendurskoðun og umturnun á öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi, stöðugleika og fyrirsjáanleika.

Að sama skapi telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að breytingar á stjórnarskráséu gerðar í víðtækri pólitískri sátt.

Frá því að stjórnarskrárnefnd tók til starfa síðla árs 2013 hefur vinnan mótast af tveimur meginsjónarmiðum. Annars vegar hefur verið gengið út frá því að áfangaskipta endurskoðunarvinnunni og taka fyrir afmarkaða þætti stjórnarskrárinnar í stað þess að leggja fram tillögur til heildarendurskoðunar. Hins vegar hefur verið lögð mikil áhersla á að sem víðtækust sátt geti náðst um niðurstöðurnar.

Bæði þessi sjónarmið eru í góðu samræmi við áherslur Sjálfstæðisflokksins í þessu máli.

Sjálfstæðisflokkurinn telur óheillavænlegt að knýja fram róttækar breytingar á stjórnarskrá í krafti meirihluta hverju sinni. Breytingar á stjórnarskrá á miklu frekar að ákveða af yfirvegun og í áföngum í sem mestri samstöðu til að tryggja stöðugleika í stjórnskipun landsins.

Flokkur Fólksins

Flokkurinn vill stjórnarskrárbreytingu sem tryggi það, að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu verði lýstar þjóðareign. Hann vill og stuðla að stjórnarskrárbreytingu sem tryggi beint lýðræði fólks með ákveðinni lágmarks þátttöku í beinni kosningu um ákveðin úrlausnarefni. Tryggi ennfremur að kosningalöggjöfin verði endurskoðuð og að réttur almennings til upplýsinga um málefni stjórnsýslunnar verði tryggður.

Miðflokkurinn

Við ætlum að endurskoða stjornarskrána í köflum á næstu tveim kjörtímabilum.

Við ætlum að beita okkur fyrir ákvæðum um beint lýðræði og borgarafrumkvæði í stjórnarskrá.

Píratar

Samfélagið hefur þróast mun hraðar en stjórnkerfið og því er þörf á nýjum samfélagssáttmála á mannamáli sem unninn er á lýðræðislegan máta. Sú vinna hófst árið 2009 og árið 2012 greiddi aukinn meirihluti kjósenda atkvæði með því að taka upp nýja stjórnarskrá, grundvallaða á tillögum stjórnlagaráðs.

Í tillögum stjórnlagaráðs er að finna hafsjó af jákvæðum kerfisbreytingum sem myndu leiða af sér lýðræðislegra, gegnsærra og stöðugra stjórnkerfi. Ný stjórnarskrá færir auðlindir Íslands í þjóðareign ásamt því að auka mannréttindi og stuðla betur að vernd þeirra á nýjum tímum.

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin styður að frumvarp stjórnlagaráðs taki gildi sem fyrst sem ný stjórnarskrá. En þegar hún hefur tekið gildi viljum við samt gera breytingar á henni.

Alþýðufylkingin tekur ekki undir þá skoðun að orsök kreppunnar sé að finna í stjórnarskránni og því sé brýnt að breyta henna til að koma á samfélagslegum breytingum. Enda koma miklar breytingar á stjórnarskrám frekar í kjölfar þjóðfélagsbreytinga en að stuðla að þeim.

Frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá felur í sér ýmsar breytingar sem eru til bóta, t.d. um aukna aðkomu almennings að málum gegnum þjóðaratkvæðagreislur. Þá er greinin um náttúruauðlindir mjög til bóta og fleira mætti nefna. Hins vegar virðist 111. greinin um framsal ríkisvalds aðallega þjóna þeim tilgangi að auðvelda inngöngu í ESB.

Þegar kemur til uppstokkunar á stjórnarskránni verður fullt tilefni til að beita sér fyrir mun meiri breytingum til jafnaðar og hagsbóta fyrir alþýðuna en stjórnlagaráð hefur lagt til. Þar má nefna ítarlegri skilgreiningu á eignarréttinum sem kvæði á um að eignarréttur allra skuli verða jafn gildur. Núverandi skilgreining sem aðeins segir að eignarrétturinn sé friðhelgur, er mest notuð til að renna stoðum undir rétt auðstéttarinnar til að halda sínu og græða á eigin auðmagni. Setja mætti í stjórnarskrá ákvæði um hámarks launamun, félagslegan rekstur á innviðum samfélagsins og fleira sem setur auðstéttinni skorður en bætir réttarstöðu alþýðunnar.

Samfylkingin

Samfylkingin vill nýja stjórnarskrá á nýju kjörtímabili. Stjórnarskrá er samfélagssáttmáli þjóðar sem veitir henni leiðsögn og stuðning. Eftir fjármálahrun 2008 samþykkti Alþingi merkan feril fyrir úrbætur á stjórnarskrá lýðveldisins sem vakið hefur alþjóðlega athygli, en herslumun vantar á að ljúka. Ferlið var opið og gagnsætt og hófst með skipun Alþingis á stjórnlaganefnd sem hélt þjóðfund. Stjórnlagaráð byggði vinnu sína á niðurstöðum hans og skilaði frumvarpi til Alþingis sem tók málið til ítarlegrar umfjöllunar.

Staða stjórnarskrármálsins er á margan hátt athyglisverð og margt verið gert síðasta áratuginn. Augljóst er að tíminn og samfélagsþróunin vinnur með úrbótum. Ekki verður unað lengur við óbreytt ástand. Tillögur Stjórnlagaráðs kollvarpa ekki gildandi stjórnarskrá og hefur frumvarpið þegar verið yfirfarið af Alþingi með aðstoð hæfustu sérfræðinga, innanlands og utan. Meginhugsunin er að styrkja lýðræði, jafnræði og velferð og þar með sjálfbærni á mörgum sviðum samfélagsins, auk þess að tryggja að arður af auðlindum þjóðarinnar renni í sameiginlega sjóði landsmanna.

Tillögur stjórnlagaráðs hafa verið samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðarvilja skal virða. Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • þjóðarvilji verði virtur og þjóðin eignist nýja stjórnarskrá, byggða á tillögum stjórnlagaráðs, niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðsunnar 2012 og þeim úrbótum sem þegar hafa verið lagðar til á Alþingi árið 2013. Samfylkingin hefur gengt lykilhlutverki í því ferli og vill ljúka því hið fyrsta.

Dögun

Dögun vill nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina. Samanber þann ríka vilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Með lögum skal tryggja eftirfarandi rétt almennings:

Auðlindarákvæði þar sem þjóðinni er tryggður eignarrétturinn á auðlindum Íslands. Að ný stjórnarskrá tryggi almenningi aðgang að öllum upplýsingum sem opinberir aðilar safna í samræmi við persónuverndarlög.

Við leggjum sérstaka áherslu á að tryggja tafarlaust með lögum eftirfarandi rétt almennings: Persónukjör samhliða flokkakjöri. Kjósendur hafi rétt til að kjósa á milli einstaklinga og framboðslista. Þjóðaratkvæðagreiðslur óski 10% kjósenda þess. Íbúar kjördæma eða sveitarfélaga geti átt frumkvæði að atkvæðagreiðslu um sameiginleg hagsmunamál svæðisins óski 10% kjósenda þess. Sjálfstæði sveitarfélaga verði aukið og nálægðarreglan í heiðri höfð. Ákvarðanir verði teknar á því stjórnsýslustigi sem næst er málinu sjálfu.

Vinstri Græn

Ljúkum vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klárum nýja stjórnarskrá byggða á tillögum Stjórnlagaráðs.

Nýliðnir atburðir undirstrika mikilvægi þess að stjórnsýslan þjóni almenningi. Ný stjórnarskrá er mikilvægt skref í þá átt að það sé tryggt. Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur áherslu á að þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 verði lokið og byggt verði á tillögum Stjórnalagaráðs við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar..

Vinstri græn leggja áherslu á afdráttarlaust auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum er skýrt. Einnig þarf að tryggja hinsegin fólki vernd í stjórnarskrá með því að bæta við 65. grein, svo þar séu að auki tilgreind kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning.

Allt ferlið í kringum nýju stjórnarskrána var mjög opið á kjörtímabilinu 2009 til 2013 – það leiddi saman almenning, sérfræðinga og stjórnmálamenn. En á þeim tíma sem liðið hefur frá þjóðaratkvæðagreiðslunni hefur því miður lítið þokast. Þjóðin hefur ekki fengið að vera áfram í sambandi við stjórnarskrárdrögin síðustu fimm árin, eða frá því að meirihluti kjósenda greiddi atkvæði með því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Vinstri græn leggja áherslu á að hluti af þeirri vinnu sem er framundan til að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar felist í því að eiga að nýju samtal við þjóðina um þennan grundvallarsáttmála samfélagsins.

Þannig sjáum við fyrir okkur að megi halda af stað af nýju með heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og skapa breiðari samstöðu um hana en náðst hefur.